29.03.22

Útreikningur á orlofi

Útreikningur á orlofi hefur tekið breytingum eftir að vinnuvika var stytt hjá starfsfólki ríkis, sveitarfélaga og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. 

Hjá vaktavinnufólki breyttist útreikningur frá og með 1. maí 2021. 

Orlofsréttur starfsmanns í fullu starfi er eftir sem áður 240 klst. eða að jafnaði 30 dagar. Engar breytingar hafa verið gerðar á fjölda stunda né fjölda daga skv. kjarasamningum.

Útreikningur orlofs fyrir 1. maí 2021

Orlof var reiknað með eftirfarandi hætti fyrir 1. maí 2021:

240 orlofsstundir (á ári fyrir fullt starf) / 8 vinnustundir á dag (reiknað 40 klst. á viku / 5 dagar á viku) = 30 dagar 

Útreikningur orlofs eftir 1. maí 2021

Eftir 1. maí 2021 er orlof reiknað með eftirfarandi hætti:

240 orlofsstundir (á ári  fyrir fullt starf) / 7,2 vinnustundir á dag / stuðullinn 1,11 (stuðullinn reiknaður með 40/36 klst. á viku = 1,11) = 30 dagar 

Orlof starfsfólks í hlutastarfi er reiknað með sama hætti. Í stað 36/5 (vinnuvikan 36 klst. miðað við 5 virka daga vikunnar) breytist 36 miðað við starfshlutfall. 

Aðrir þættir sem hafa þarf í huga vegna orlofstöku starfsfólks

 • Orlof er greitt sem dagvinna. 
 • Vægi vinnuskyldustunda ávinnst ekki í orlofi.
 • Orlof af vaktahvata er greitt jafnóðum (mánaðarlega).
 • Orlof af vaktaálagi er greitt jafnóðum (mánaðarlega). Undantekning er meðal Eflingarfólks hjá Reykjavíkurborg. 
 • Fyrir starfsmann í fullu starfi reiknast 8 klst. í orlof fyrir hvern virkan vinnudag (miðað við 7,2 klst. vinnudag*1,11).
 • Ef vaktir eru styttri eða lengri getur það haft áhrif á hlutfall tíma sem teknir eru í orlofi eftir því hvernig það kemur niður á vaktaplaninu. Sérstaklega á það við ef um fastar vaktarúllur er að ræða.

Meðaltalsorlof

Mælt er með að orlof sé skráð sem meðaltalsorlof (ekki vaktir), að minnsta kosti þegar teknir eru samfellt fleiri en 3 orlofsdagar í röð.

Ástæður þess eru:

 • Það skiptir máli m.t.t. vaktahvata að fá mætingu á hvern vinnudag þegar starfsmaður er í orlofi til að hann geti átt möguleika á vaktahvata (14-19 mætingar). Ef vaktir eru lengri eru mætingarnar færri.
 • Meira gegnsæi er fyrir starfsmanninn á hvað fylgir með í orlofi og hvað ekki.
 • Vinnuskil eru rétt. Geta verið í of miklum +/- ef orlof er sett á vaktir, m.t.t. rauðra daga sem falla á virka daga, vægis vinnuskyldustunda og vegna lengdar vakta.
 • Jöfnun vinnuskila hafa áhrif til uppsöfnunar á tímum í vinnuskilum ef ekki er skráð meðaltalsorlof. Orlofsdagar eiga ekki að falla á rauða daga sem bera upp á virka daga.
 • Ef orlof er ákveðið eftir að vinnuskýrsla liggur fyrir þarf að fjölga tímum í orlofi miðað við vaktir þar sem orlof tekur ekki mið af vægi vinnuskyldustunda.
 • Við skráningu orlofs þarf alltaf að hafa í huga hvernig unnið er fyrir og eftir orlofið. Á það sérstaklega við þegar unnið er helgarvinnu í kjölfar orlofs í miðri viku. 
Útreikningur á orlofi - mynd
Fara í áskrift